Tungnaréttum frestað – allt í góðu í Gullhreppunum

Vegna óveðurs á fjöllum í vikunni er Tungnaréttum frestað um einn dag og verða þær næstkomandi sunnudag.

Að sögn Lofts Jónssonar, fjallkóngs í Myrkholti, gengur illa að reka féð fram en það er þungt vegna klakaklepra. Menn rekur ekki minni til þess að Tungnaréttum hafi verið frestað áður.

Allt er í góðu hjá Hrunamönnum og verða Hrunaréttir á réttum tíma kl. 10 á föstudag. Þá staðfesti Lilja Loftsdóttir, fjalldrottning Gnúpverja, í morgun að ekki þyrfti að fresta réttum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Skaftholtsréttir verða á föstudag og Reykjaréttir á Skeiðum á laugardag.