Tungnaá friðlýst gegn orkuvinnslu

Tungnaá við Bjallavað. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Umhverfis- og auðlindaráðherra undirritaði í dag friðlýsingu efsta hluta vatnasviðs Tungnaár gegn orkuvinnslu í samræmi við lög um verndar- og orkunýtingaráætlun.

„Friðlýsing efsta hluta Tungnaár er enn eitt skrefið í átt að frekari verndun miðhálendisins,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. „Svæðið er í hjarta stórra víðerna sem nú eru komin í var gegn virkjunum.“

Svæðið sem Tungnaá rennur um er ríkt af verðmætum, einkum jarðminjum og víðernum, þar sem athafnir mannsins eru lítt áberandi. Jarðfræðilegur breytileiki er mikill og landslag svæðisins því ákaflega sérstætt og hefur hátt verndargildi.

Nokkur uppistöðulón og virkjanir er að finna neðar í farvegi Tungnaár. Friðlýsingin nær til efsta hluta vatnasviðs Tungnaársvæðisins eða ofan efstu orkumannvirkja sem þegar eru í ánni, þ.e.a.s ofan Krókslóns.

Verndarsvæðið er 1086,6 km2 að stærð og nær yfir svæði virkjunarhugmyndanna Bjallavirkjunar og Tungnaárlóns sem eru í verndarflokki rammaáætlunar. Þar sem vatnasvið Tungnaárlóns er hluti af vatnasviði Bjallavirkjunar er friðlýst eitt samfellt svæði sem nær til vatnasviða beggja virkjunarhugmyndanna.

Fyrri greinFyrsta skóflustungan að einum stærsta leikskóla landsins
Næsta greinValborg sveitarlistamaður Rangárþings eystra