Tugir milljóna í uppbyggingu á Suðurlandi

Í dag var tilkynnt um úthlutun 278 milljóna króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Rúmum 63 milljónum króna er úthlutað til verkefna á Suðurlandi.

Stærsta styrkinn í dag fengu Vinir Þórsmerkur, alls 30 milljónir króna, til 3. áfanga byggingar göngubrúar yfir Markarfljót við Húsadal.

Rangárþing eystra fékk samtals 9,6 milljónir króna til þriggja verkefna; gönguleiðar yfir Fimmvörðuháls, deiliskipulag á Þórsmerkursvæðinu og bætt aðgengi og aðstöðu á áhugaverðum stöðum í sveitarfélaginu.

Sveitarfélagið Árborg fékk úthlutað tæpum 5,5 milljónum króna til verkefna á Eyrarbakka og Stokkseyri; endurbyggingar Þuríðarbúðar, umhverfishönnun við listaverkið Kríuna og skipulag og hönun við Húsið á Eyrarbakka og Eyrarbakkakirkju.

Kötlusetur ses fékk samtals 4,1 milljón króna til verkefna í Reynisfjöru og vegna DC-3 vélarinnar á Sólheimasandi. Þá fékk Fannborg ehf styrki til tveggja verkefna sem tengjast vatnslögn og fráveitu í Kerlingafjöllum, samtals tæpar 2,5 milljónir króna.

Minjavörður Suðurlands fékk 4 milljónir króna vegna Vígðulaugar á Laugarvatni, Skógræktarfélag Íslands 2 milljónir vegna verkefnisins Opinn skógur í Skógum undir Eyjafjöllum og Arkitektar Hjördís & Dennis ehf. 1,8 milljón króna vegna verkefnisins Vistvænir fjallaskálar í Ríki Vatnajökuls.

Fleiri styrkir fóru í Skaftárhrepp og á Vatnajökulssvæðið; Almenna verkfræðistofan fékk 1,5 milljón króna styrk vegna vinnu í Hólaskjóli, Landvernd tæpar 1,2 milljónir vegna skiltagerðar á háhitasvæðum í Vatnajökulsþjóðgarði og í Kerlingarfjöllum.

Þá fékk Ferðafélagið Útivist eina milljón króna í styrk til þess að koma upp salernisaðstöðu við Strútslaug norðan Mýrdalsjökuls.

Þetta er þriðja úthlutun ársins og hefur þá alls rúmum 576 milljónum króna verið úthlutað úr sjóðnum á landsvísu á árinu.

Framkvæmdasjóður Ferðamannastaða er fjármagnaður með 3/5 hlutum gistináttagjalds en að auki var sjóðurinn stórefldur með fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar og ákveðið að hann fái árlega 500 milljónir króna aukalega arin 2013-2015 til að hraða úrbótum á fjölsóttum ferðamannastöðum og byggja upp nýja, allt með sérstakri áherslu á vernd umhverfis.

Fyrri greinKjördæmafundur í FSu í kvöld
Næsta greinÓmar þjálfar Stokkseyringa