Tugþúsundir blóma í Hveragerði

Andi hippatímans verður allsráðandi í blíðunni sem spáð er á hinni árlegu garðyrkju- og blómasýningu „Blóm í bæ“ sem haldin verður í Hveragerði um helgina.

Fjöldi viðburða verður á sviði garðyrkju, umhverfismála, skógræktar og íslenskrar framleiðslu dagana 26. til 28. júní og er aðgangur ókeypis alla dagana.

Flower power
Þema sýningarinnar í ár er „Flower power“ og mun því hippatímabilið, blómabörnin, ást og friður verða allsráðandi og blómaskreytar töfra fram skrautlegar skreytingar í þeim anda. Að sýningunni standa Hveragerðisbær, Samband garðyrkjubænda, Landbúnaðarháskólinn, Félag blómaskreyta, Garðyrkjufélag Íslands og Grænn markaður auk fjölmargra sjálfboðaliða.

Matur úr íslensku hráefni
Allir ættu að geta fundið sér eitthvað við hæfi á Blómum í bæ þar sem dagskráin er sérlega glæsileg, fjölskyldumiðuð og fjölbreytt. Meðal annars mun Sveinn Kjartansson, matreiðslumeistari, sýna gestum hvernig elda megi úr alíslensku hráefni á meðan að markaðir, leiksýningar, fræðsla og sýnikennsla verða í fullum gangi auk fjölda tónlistaratriða. Síðdegis á laugardeginum verður gestum síðan boðið uppá dýrindis grænmetissúpu í Lystigarðinum.

Það ætti engum að þurfa að leiðast í Hveragerði um helgina þar sem hægt verður að rölta um bæinn og njóta alls þess sem boðið er upp á en markaðsstemning verður um allan bæ þar sem veitinga- og verslunareigendur sem og garðplöntuframleiðendur munu bjóða gesti velkomna með hinum fjölbreyttasta hætti.

Fyrri greinBreski ferðamaðurinn fundinn
Næsta greinBragðdauft hjá Selfyssingum