Tryggvagötu lokað á mánudag

Á morgun, mánudaginn 16. febrúar, hefjast framkvæmdir við endurnýjun Tryggvagötu á Selfossi frá og með gatnamótum Austurvegar og suður fyrir nýbyggingu sundlaugarinnar, til móts við Tryggvagötu 18.

Verklok eru áætluð 1. ágúst 2015. Verkið felur í sér endurnýjun á yfirborði og öllum götulögnum en það eru fráveitu-, hitaveitu-, vatnsveitu-, fjarskipta- og rafmagnslagnir. Af þessum sökum má búast við röskun á umferð sem og truflun af vinnu þungavinnuvéla.

Frá og með morgundeginum verður Tryggvagötu lokað í áföngum miðað við framvindu verksins.

Tryggvagata verður opin fyrir umferð frá gatnamótum Engjavegar að verkmörkum við Tryggvagötu 18 en frá Árvegi að verkmörkum við gatnamót Austurvegar. Lokun Austurvegar og hjáleiðir á verktíma verða auglýstar í fjölmiðlum í vikunni 15.-21. febrúar.

Framkvæmda- og veitusvið Árborgar biður íbúa og þjónustuaðila velvirðingar á óþægindum sem kunna að verða vegna framkvæmdarinnar.

Verktakinn sem sér um framkvæmdirnar er Borgarverk ehf. en ef íbúar óska eftir frekari upplýsingum er þeim vinsamlega bent á að hafa samband við Jóhann Ágústsson, eftirlitsaðila verksins, í gegnum tölvupóst, johann.agustsson@gmail.com eða í síma 861 5605.

Neyðarnúmer vegna bilana eru 482 1324 hjá Selfossveitum vegna hita-og vatnsveitu og 840 5570 hjá HS-veitum vegna rafmagns. Vegna bilana fjarskipta er íbúum bent á að hafa samband við sitt fjarskiptafyrirtæki.

Fyrri greinStórsigur á útivelli
Næsta greinTalsvert tjón í eldsvoða á Selfossi