Tryggvagarði breytt í Jólagarð

Í tengslum við jólahátíðina verður Tryggvagarði á Selfossi breytt í jólagarð í desember þar sem sölu- og markaðsstemming verður allsráðandi auk skemmtilegrar afþreyingar fyrir fjölskylduna.

Garðurinn mun opna fimmtudaginn 25. nóvember nk. og verða opinn á fimmtudagskvöldum frá 18:00 – 21:00 og laugardögum og sunnudögum frá 13:00 – 18:00 fram til jóla. Einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki geta þá leigt söluhús og selt t.d. handverk eða aðrar vörur.

Leiga er einungis 2.000 kr. fyrir daginn og 3.000 kr. fyrir heila helgi (fimmtudagurinn fylgir þá frítt með ef viðkomandi vill nýta hann). Til að fá nánari upplýsingar og/eða leigja söluhús í Jólagarðinum er hægt að hafa samband við Braga Bjarnason, jol@arborg.is eða í síma 480-1900.

Einnig verður sett upp svið í garðinum og verða reglulegir viðburðir í gangi á opnunartíma garðsins. Þeir sem hafa áhuga á að koma fram í Jólagarðinum geta haft samband á sama stað.

Viðburðadagatal
Sveitarfélagið Árborg ætlar að láta gera sérstakt viðburðadagatal fyrir desember í tengslum við Jól í Árborg 2010. Einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki geta komið viðburðum í desember á framfæri í dagatalinu en því verður dreift inn á öll heimili í Árborg. Hægt er að senda upplýsingar fyrir 20.nóvember á jol@arborg.is. Mikilvægt er að fram komi dag- og tímasetning viðburðar.