Tryggja varaafl fyrir vatnsdælur

Vatnsveita Rangárþings ytra og Ásahrepps vinnur nú í samráði við sveitarstjórnirnar að viðbrögðum við mögulegu rafmagnsleysi í kjölfar stórra flóða niður Þjórsá og Ytri Rangá vegna hamfaragoss í Bárðarbungu.

Í frétt á vef Ásahrepps segir að dælustöðvar vatnsveitunnar séu vanbúnar til að taka við utanaðkomandi varaafli ef rafmagn fer tímabundið af dreifiveitum Landsnets og Rarik. Til að svo geti orðið þarf að setja upp búnað í hverri dælustöð sem gerir það kleift að keyra rafmagn inn á dælurnar frá færanlegum rafstöðvum.

Fyrir liggur, samkvæmt fundagerð stjórnar vatnsveitunnar, að kostnaður við uppsetningu tengibúnaðar er á bilinu 2,3-2,8 milljónir króna og að kaup á ellefu traktordrifnum rafstöðvum er rúmlega 8 milljónir króna sem myndi duga til að tryggja vatns í langvarandi rafmagnsleysi.

Málið hefur verið kynnt sveitarstjórnum beggja sveitarfélaganna sem hafa samþykkt að sameinast um kostnað vatnsveitunnar við framkvæmdirnar.

„Sveitarstjórnir á svæðinu vinna náið með almannavörnum og einstökum stofnunum að viðbrögðum við mögulegri náttúruvá. Ekki síst afleiðingum flóða og áhrifa þess á daglegt líf. Mestu skiptir rýmingin sem er í höndum almannavarna, og síðan hvernig er hægt að tryggja grunnþætti á borð við vatn og rafmagn,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, sveitarstjóri Ásahrepps.

„Það skiptir sköpum að geta við slíkar aðstæður komið vatni á hið fyrsta ef það dettur út, bæði fyrir fólk og búfénað. Til að mynda stórbú á borð við það sem Reykjagarður rekur á Ásmundarstöðum og alla mjólkuframleiðsluna sem er háð mikilli vatnsnotkun. Viðbragð Vatnsveitunnar er gott dæmi um þessa vinnu. Það þarf að fjárfesta í búnaði og rafstöðvum, sem er líka mikilvægt upp á framtíðina. Þessi búnaður er þá kominn og til staðar. Það leggjast allir á eitt að tryggja sem allra best viðbrögð við mögulegri náttúruvá og tekið vel utan um þessi mál á öllum stigum”, sagði Björgvin ennfremur.

Fyrri greinSelfoss með brons í sveitakeppninni
Næsta greinDagbók lögreglunnar: Fór úr axlarlið í slagsmálum