Tryggir vinnu fyrir 60 til 70 manns

Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri verslunarmiðstöð í útjaðri Selfoss síðdegis í dag.

Það er JÁVERK ehf. sem reisir húsin við hlið BYKO í Larsenstræti. Að sögn Gylfa Gíslasonar, framkvæmdastjóra JÁVERK, mun jarðvinna hefjast strax á mánudaginn en gert er ráð fyrir að á milli 60 og 70 manns starfi við verkið á framkvæmdatíma.

Áætlað er að opna verslunarmiðstöðina í nóvember nk. en þar verða verslanir Bónus og Hagkaups.

Um að ræða tvö hús, annars vegar 2.300 fermetra hús fyrir Bónus og Hagkaup, og hins vegar 900 fermetra hús þar á móti sem er óráðstafað. Fyrra húsið verður afhent Högum fullbúið en hitt verður annað hvort selt eða leigt.

Mikið verður lagt uppúr því að það verði næg bílastæði og gott aðgengi, bæði fyrir gesti og starfsmenn. Gylfi segist sannfærður um að á næstu 10 til 15 árum verði mikil uppbygging á svæðinu sem sé liggi vel að samgöngum og verði í þjóðbraut þegar ný brú yfir Ölfusá kemur.

,,Það vantar nútímalegt verslana- og skrifstofuhúsnæði á Selfossi og við sjáum fram á mikla uppbyggingu þarna,“ sagði Gylfi.