„Trúum því að gosin séu tengd“

Sunnlendingar hafa tekið eftir að snjólínan á Heklu nær óvenju langt niður enda er það í takt við tíðarfarið. Talsverð aska er í snjónum.

Páll Einarsson, jarðfræðingur, segir að fyrirvari á Heklugosi verði afar skammur, í mesta lagi hálf til ein klukkustund. Fram til 1980 voru það talin skýr teikn um væntanlegt gos þegar byrjaði að þorna í lækjum í nálægum sveitum en að sögn Páls eru það ekki eins skýr tákn lengur.

Gosin sennilega tengd
„Það er ekki svo gott að átta sig á því hversu mikill snjór er í henni núna, það er svo mikill sandurinn og rykið á henni,“ segir Jóhanna Jóhannsdóttir í Haga í Gnúpverjahreppi, sem hefur Heklu fyrir augunum á hverjum degi. Hún vill ekki draga þá ályktun að snjóalög í fjallinu segi til um gos.

„Hér höfum við þá trú að þessi gos séu tengd, og þegar búið er að gjósa svona mikið undanfarið dragi úr líkunum á gosi í öðrum fjöllum,“ segir Jóhanna, sem verður 97 ára gömul í nóvember.

Hún sá Heklu fyrst gjósa árið 1947. „Það var mikið gos, hófst um vorið og stóð fram á haust og var tilkomumikið,“ segir Jóhanna. Um þá trú sem tengist lækjunum segir Jóhanna: „Þeir trúðu því í Rangárvallasýslunni.“

Fyrri greinRangárnar byrja hægt
Næsta greinMarkaðsstofan styrkir stoðir ferðaþjónustunnar