Truflanir á hitaveitunni í Hveragerði

Síðustu daga hafa starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur glímt við truflanir í rekstri hitaveitunnar í Hveragerði. Reksturinn er orðinn stöðugur en hugsanlegt er að grugg hafi sest í síur við truflanirnar og dregið úr rennsli í einhver hús.

Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR, segir að verði íbúar varir við slíkt, það er að rennsli sé óvenjulítið, sé þeim bent á að hafa samband við þjónustuver Orkuveitunnar.

Eiríkur segir hitaveituna í Hveragerði óvenjulega. “Hún er í raun þrjár veitur þar sem afhent er háhitagufa til nokkurra viðskiptavina, upphitað kalt vatn úr varmastöð og jarðhitavatn frá Gljúfurárholti. Rekstur varmastöðvarinnar er viðkvæmur fyrir sveiflum í notkun og gufuþrýstingi en truflanirnar nú má rekja til þess að stjórnlokar í varmastöð hafa ekki virkað eðlilega. Það hefur þýtt að hitastýring á vatni frá stöðinni hefur sveiflast milli 50 og 100 gráða. Þannig á það auðvitað ekki að vera.”

Starfsmenn OR hafa leitast við að handstýra stöðinni, sem annars á að vera sjálfvirk. Háhitaborholan, sem nýtt er vill líka vera með kenjar og þrýstingur í henni fellur stundum með litlum fyrirvara. Mislangan tíma getur tekið að koma henni til að nýju en á meðan fæst hvorki gufa í gufuveituna né heitt vatn úr varmastöðinni.

Undanfarna daga hafa starfsmenn Orkuveitunnar glímt við viðfangsefni af þessu tagi á sama tíma og annar tveggja varmaskipta í varmastöðinni var í upptekt. Sá er nú kominn í notkun og virðist virkni hans stöðug. Unnið er að frekari viðgerð á búnaði í stöðinni m.a. í samstarfi við hönnuð hennar.

“Við biðjumst velvirðingar á óþægindum vegna þessa og ítrekum við þá sem telja að síur hjá sér kunni að hafa stíflast að hafa samband við okkur og við tökum á því,” segir Eiríkur.

Fyrri greinGotti horfinn aftur
Næsta greinSkaftfellingamessa í Breiðholtskirkju