Tröppur við Seljalandsfoss

Sveitarfélagið Rangárþing eystra leggur ákveðið fjármagn á hverju ári í uppbyggingu áfangastaða í sveitarfélaginu.

Með stærri verkefnum ársins eru smíði trappa við Seljalandsfoss. Verkefnið er einnig styrkt af umhverfissjóði Ferðamálastofu sem leggur tvær milljónir króna í verkið, en framkvæmdin mun kosta um 6 milljónir króna.

Uppsetning hefst núna í byrjun júní og er áætlað að verkið taki um 3-4 vikur. Á meðan á uppsetningu stendur má búast við einhverjum truflunum við fossinn.

Verkefnið er unnið af vélsmiðjunni Magna á Hvolsvelli en hönnun og umsjón með verkefninu hefur Oddur Hermannsson hjá Landformi á Selfossi.

Fleiri verkefni eru í undirbúningi hjá sveitarfélaginu, en þar má nefna pall sem verður staðsettur ofan við Skógafoss, í framhaldi af tröppum sem liggja upp með fossinum. Einnig verður aðgengi lagað á fleiri stöðum og skiltum komið fyrir til að auka öryggi ferðamanna um svæðin, en vinsælustu áfangastaðirnir munu ganga fyrir.

Áætlanir um framkvæmdir í sveitarfélaginu hafa breyst mikið vegna gossins í Eyjafjallajökli, en í bígerð er m.a. að koma upp merkingum á ýmsum stöðum tengdum gosinu.