Trjáleifar tímasetja Kötlugos

Hópi fræðimanna frá nokkrum löndum hefur nú tekist að tímasetja með nokkurra mánaða nákvæmni eldsumbrot í Kötlu sem urðu á fyrri hluta níundu aldar.

Aldurs­grein­ingin fékkst með rannsóknum á leifum trjáa sem féllu vegna gossins.

Frá þessu er greint á heimasíðu Skógræktarinnar.

Hópurinn fléttaði saman raunvísindalegum og sagnfræðilegum gögnum til að komast nærri um tímasetn­­ingu Kötlugossins sem varð skömmu áður en almennt er talið að Ísland hafi tekið að byggjast fyrir alvöru.

Rannsóknarhópurinn hafði áður staðfest með rannsóknum sínum að árið 775 hefði mikið sólgos valdið því að hlutfall geisla­kols í lofthjúpnum hækkaði um hríð. Slíkrar hækkunar sést staður í viði þeirra trjáa sem spruttu á þeim tíma. Með því að mæla magn geislakols í einum drumbanna í Drumbabót í Fljótshlíð gat vísindafólkið greint hvaða árhringur átti við árið 775, talið árhringina út að berki trésins og þar með árin þangað til trén féllu í jökulhlaupinu. Þar með var vitað hvaða ár umrætt Kötlugos varð.

Ysti árhringurinn var fullskapaður og sá næsti ekki byrjaður að myndast sem þýddi að eldgosið varð ekki á vaxtartíma trésins heldur einhvern tíma frá haustinu 822 og fram á vorið 823, áður en tréð fór að vaxa á ný.

Ef við miðum við að Ísland hafi ekki tekið að byggjast fyrr en um 870 hefur skógurinn í Drumbabót fallið hálfri öld áður en Ingólfur Arnarson á að hafa siglt ásamt föruneyti sínu með fram suðurströnd landsins til vesturs.