Trippi drap tófu

Sá óvenjulegi atburður varð á bænum Leirubakka á Landi á sunnudag að unghryssa elti uppi ref í haga við bæinn og drap hann.

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.

Anders Hansen, bóndi á Leirubakka, var að huga að folaldsmerum skammt frá bænum, þegar hann sá hvar refur fór á harðahlaupum um hagana skammt frá. Tveggja vetra hryssa, sem þar var, tók einnig eftir refnum, frýsaði mikinn og tók síðan á rás á eftir honum, en rebbi reyndi sem mest hann mátti að forða sér.

„En það ótrúlega gerðist,“ sagði Anders í samtali við Morgunblaðið, „að trippið dró refinn uppi á hlaupunum og náði honum. Hún hafði þá engar vöflur á, heldur lamdi hann með framfæti, þannig að hann vankaðist. Og eftir að hún hafði virt hann fyrir sér liggjandi í grasinu reiddi hún aftur til höggs og veitti honum banahögg.“

Anders sagði að við nánari skoðun hefði komið í ljós að þetta var fullorðinn refur, sem trúlega hefur verið í ætisleit í haganum. „Það er mikið um ref hérna í efri hluta Landsveitar,“ sagði Anders í Morgunblaðinu í dag.