Trausti býður sig fram sem formaður Bændasamtakanna

Trausti Hjálmarsson í Austurhlíð í Biskupstungum gefur kost á sér til formennsku í Bændasamtökunum en formannskjör fer fram í mars næstkomandi.

Trausti lýsir þessu yfir í aðsendri grein í Bændablaðinu í síðustu viku. Gunnar Þorgeirsson í Ártanga í Grímsnesi er formaður samtakanna og á aukabúnaðarþingi í nóvember síðastliðnum tilkynnti hann að hann hygðist gefa kost ár sér til endurkjörs.

„Ég hef tröllatrú á íslenskum landbúnaði og er ekki einn um það. Hæfni og þekking bænda er mikil, ungt fólk hefur brennandi áhuga á að komast í landbúnað og ég er sannfærður um að nú sé komið að þeim tíma að við getum blásið til stórsóknar í íslenskum landbúnaði,“ segir Trausti.

„Ég hef hug á því að taka þátt í þeirri spennandi uppbyggingarvinnu sem er fram undan með öllum bændum og er þess fullviss að með góðu samstarfi bænda og búgreina getum við lyft grettistaki á næstu árum,“ segir Trausti ennfremur. Hann er sitjandi formaður í deild sauðfjárbænda og mun ekki gefa kost á sér til áframhaldandi formennsku þar.

Gunnar var kjörinn formaður árið 2020 en formaður er kosinn til tveggja ára í senn með rafrænni kosningu allra félagsmanna. Framboðsfrestur til formannskjörs rennur út þann 22. febrúar.

Fyrri greinSuðurlandsvegur lokaður vegna umferðarslyss
Næsta greinBanaslys á Suðurlandsvegi