Trampólín og tjöld á flugi í óveðrinu

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Dagurinn í dag hefur verið annasamur hjá björgunarsveitum en þeim hafa borist átta útköll víða um land. Dagurinn hófst á óveðursverkefnum í Vestamannaeyjum og Grímsnesi upp úr klukkan 6 í morgun.

Mastur var við það að falla við höfnina í Eyjum og trampolín var að fjúka í Grímsnesi, björgunarsveitarfólk reddaði málunum í snarheitum í báðum tilfellum. Mastrið var fellt og böndum komið á trampolínið.

Leiðinlegt veður var áfram fram yfir hádegi á Suðurlandi og var björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni var kölluð til á tjaldsvæðið þar sem tilkynning hafði borist um tjöld og fellihýsi að fjúka. Upp úr hádegi óskaði Vegagerðin svo eftir aðkomu björgunarsveita vegna mjúkrar lokunar á þjóðveginum um Skeiðarársand við Skaftafell.

Þá hafa björgunarsveitir þurft að fara í verkefni á Keflavíkurflugvelli vegna þotu í vandræðum, á Breiðafirði þar sem ferjan Baldur varð vélarvana, á Seyðisfirði þar sem árabátur var að sökkva í höfnina, í Helgafelli við Hafnarfjörð þar sem göngukona slasaðist og þá hafa sjóbjörgunarsveitir ásamt þyrlu Landhelgisgæslunnar aðstoðað skútu í vandræðum utan við Djúpavog.

Fyrri greinMarkasúpa í Þorlákshöfn
Næsta greinGrímuskylda aftur tekin upp á HSU