Torgin á Selfossi merkt

Síðdegis í dag afhjúpuðu leikskólabörn á Álfheimum skilti á Tryggvatorgi, við brúarsporðinn á Selfossi, með nafni torgsins.

Í sumar voru samþykkt nöfn á öll hringtorg í Árborg að undangenginni nafnasamkeppni. Nú verður hafist handa við að merkja torgin og þótti viðeigandi að byrja á Tryggvatorgi á afmælisdegi Tryggva Gunnarssonar, framkvæmdastjóra brúarsmíðinnar á Ölfusá 1891.

Gísli Guðmundsson og leikskólabörn á Óskasteini á leikskólanum Álfheimum stungu upp á nafninu Tryggvatorg á torgið við brúarsporðinn. Nafnið hefur átt við torgið undanfarna áratugi en hefur nú opinberlega samþykkt af bæjarstjórn.

Það var hagleiksmaðurinn Siggeir Ingólfsson, umhverfisstjóri Árborgar, sem smíðaði skiltið og verða samskonar skilti sett upp á móti öllum akstursstefnum á torginu.

Nafnasmiðirnir á Óskasteini á Álfheimum aðstoðuðu Kjartan Björnsson, formann Lista- og menningarnefndar Árborgar, við að afhjúpa skiltið og sungu að því loknu eitt lag.

Fyrri greinEndurtekin innbrot í bústaði
Næsta greinLítil umferð um Landeyjahöfn