Torfærubílar fyrir túrista

Óhætt er að segja að eitt af óvenjulegri ferðaþjónustufyrirtækjum landsins sé að fæðast á Selfossi.

Fyrir skömmu var félagið Offroad Iceland ehf. stofnað og nýlega fékk það 300 þúsund króna styrk til markaðssetningar frá Atvinnuþróunarfélagi Suðurlands. Að sögn forsprakkans, Hafsteins Þorvaldssonar, er þarna verið að gera tilraun til að nýta betur tæki og þá kynningu sem orðið hefur á íslensku torfærubílunum, sem við þekkjum helst af því að fljúga um holt og hæðir í æsilegri keppni.

Hefur félagið fengið heimild til að aka með farþega á fimm svæðum hér á landi, þar af fjórum á Suðurlandi. ,,Þetta er nánast eins og að fara í rússibana og upplifun farþega er gríðarlega sterk,” sagði Hafsteinn í samtali við Sunnlenska.

Fyrirtækið hefur tvo bíla tiltæka en getur kallað út aðra fjóra ef þörf er á. Að sögn Hafsteins eru öryggiskröfur gríðarlega strangar og farþegar eru njörfaðir niður í körfustóla eins og ökumenn með fimm punkta belti og í eldheldum galla.

,,Þetta lofar ótrúlega góðu enda ljóst að þetta er alveg ný upplifun. Við erum mjög spenntir fyrir þessu,” sagði Hafsteinn.

Fyrri greinEldgosinu lokið
Næsta greinHreinsunarvika í Bláskógabyggð