Töpuðu aldrei gleðinni

Sátt í leikslok eftir frábæran vetur. Elín, Ásrún og Heimir eftir keppni í Hljómahöllinni í kvöld. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Það var við ofurefli að etja fyrir lið Fjölbrautaskóla Suðurlands sem tapaði gegn Menntaskólanum í Reykjavík í úrslitum Gettu betur í kvöld.

„Við erum sjúklega ánægð með annað sætið,“ sagði Ásrún Aldís Hreinsdóttir, fyrirliði FSu, í örstuttu samtali við sunnlenska.is eftir keppni. Liðið fékk frábæran stuðning í kvöld í troðfullri Hljómahöll.

MR náði sjö stiga forystu strax í hraðaspurningunum og Sunnlendingunum gekk illa að vinna niður forskot þeirra, þrátt fyrir frábæra spretti. Eins og alltaf var gleðin í fyrirrúmi hjá liði FSu, sem hefur unnið hug og hjörtu þjóðarinnar í vetur. Þrátt fyrir tap í keppninni tapaði FSu aldrei gleðinni og þau lokuðu kvöldinu með því að ná þríþrautinni og minnka muninn í 36-25, sem urðu lokatölur keppninnar.

Þetta var í fyrsta skipti í 37 ár sem FSu kemst í úrslit Gettu betur og liðið hefur vakið mikla athygli fyrir sinn frábæra árangur í vetur.

Lið FSu skipa þau Ásrún Aldís Hreinsdóttir, sem nú var að keppa í sinni síðustu Gettu betur keppni eftir þriggja ára glæsilegan feril og þau Elín Karlsdóttir og Heimir Árni Erlendsson, sem hafa nú heldur betur öðlast dýrmæta reynslu sem mun nýtast liði FSu í framtíðinni.

Fyrri greinSelfyssingar ekki í úrslit
Næsta greinNaglbítur í Þorlákshöfn