Tómas og Fannar taka við Tryggvaskála

Sveitarfélagið Árborg hefur hafið viðræður við þá Tómas Þóroddsson og Fannar Geir Ólafsson um rekstur á Tryggvaskála en skálinn var boðinn út til leigu fyrr í vor.

Búið er að gera Tryggvaskála upp að mestu að innan og standa nú yfir framkvæmdir fyrir utan skálann. Tómas og Fannar eru veitingageiranum kunnir, en þeir hafa rekið Kaffi Krús á Selfossi af miklum myndarskap undanfarin ár.

Í viðtali við sunnlenska.is segjast þeir hlakka til að takast á við þetta spennandi verkefni og ætla að gera Tryggvaskála þannig úr garði að Selfyssingar geta orðið stoltir af skálanum sínum. „Við munum opna þetta fallega hús fyrir gestum okkar og hvert skref til úrbóta verður gert með virðingu fyrir húsinu og því starfi sem Skálavinafélagið hóf með enduruppbyggingu Tryggvaskála árið 1998,“ segir Tómas.

Stefna þeirra félaga er að vera með vandaðan veitingastað á 2. hæð í konungssalnum og einnig verða „private dining room“ notuð inn af salnum. „Þar verður boðið upp á steikur og fjölbreytta fiskrétti þar sem hráefni úr héraði verður notað eins og kostur gefst. Til dæmis mun Ölfusárlaxinn fá þá virðingu í matargerð sem hann á skilið,“ segir Fannar Geir.

Í elsta hlutanum fyrir miðju húsins á 1. hæð verður sögu Tryggvaskála og Selfossbæjar gert hátt undir höfði. Ferðamönnum gefst þar kostur á að leita sér upplýsinga um næstu áfangastaði og geta hlýjað sér með kaffi og koníaki eins og tíðkaðist fyrir nokkrum áratugum síðan er Brynjólfur Gíslason. „Þar verður einnig notalegt fyrir heimamenn að kíkja við í kakó og pönnukökur eða hvítvínsglas,“ segir Fannar enfremur.

Aðspurðir hvort þeir séu ekki komnir í samkeppni við sjálfan sig segja þeir svo ekki vera, heldur verði auðveldara að staðsetja báða staðina í veitingaflórunni.

„Þetta styður bara við reksturinn, okkur vantar alltaf veislusal fyrir veisluþjónustuna okkar og fær salurinn í austurendanum andlitslyftingu á næstunni. Tryggvaskáli mun verða fínni veitingastaður þar sem borin verður sérstök virðing fyrir húsinu, gestum staðarins og hráefninu úr eldhúsinu. Þar verður lágstemmd stemmning líkt og á jólahlaðborðunum sem við heldum þar um síðustu jól,“ segir Tómas.

„Það er margt búið að breytast í þessum bransa og með netinu og tilkomu TripAdvisior eru staðirnir dæmdir af gærkvöldinu. Við höfum verið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera með hæstu einkunn hjá langflestum þeirra sem skrifa á TripAdvisior um Kaffi Krús og með tilkomu Tryggvaskála verður enn auðveldara að staðsetja markhópinn fyrir Kaffi Krús,“ segir Tómas ennfremur.

„Við erum bjartsýnir á sumarið, við munum vera með nýjungar í matargerð í Tryggvaskála og einnig ætlum við að taka upp 100 ára gamlar hefðir þaðan sem gaman verður að segja frá síðar. Við Tommi vinnum vel saman og svo erum við komnir með fullt af góðu starfsfólki og okkur hlakkar öllum til að takast á við sumarið,“ segir Fannar að lokum.

Fyrri grein„Bókabéusinn í mér hlær nú og fagnar“
Næsta greinTöluvert um útstrikanir í Suðurkjördæmi