Tómas Haukur ráðinn til Rangárþings ytra

Tómas Haukur Tómasson hefur verið ráðinn forstöðumaður eigna- og framkvæmdasviðs Rangárþings ytra en starfið var auglýst á dögunum. Tómas mun hefja störf um áramótin.

Tómas Haukur er 55 ára húsasmíðameistari. Hann rak eigið verktakafyrirtæki til ársins 2005 en hefur eftir það meðal annars starfað hjá Mannviti ehf og Munch við byggingarstjórn og verkefnastjórnun bæði hérlendis og erlendis.

Hann er kvæntur Hrafnhildi Karlsdóttir og á með henni fjögur börn. Hann er búsettur í Kópavogi en á  rætur í Rangárþingi og hyggst flytja austur.

Þess má einnig geta að Tómas Haukur hefur starfað í Hjálparsveit skáta Kópavogi frá 1984 og verið starfandi í Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni frá upphafi og komið að flestum útköllum sem alþjóðasveitin hefur farið í.

Níu umsækjendur voru um starfið og voru þeir allir boðaðir í starfsviðtal.

Fyrri greinLjósbrá og Kolbrún halda tvenna jólatónleika
Næsta greinLögregla og tollstjóri leituðu í Mykinesi