Tómas Ellert sækist eftir 2. sæti

Tómas Ellert Tómasson. Ljósmynd/Aðsend

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg, sækist eftir 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar í haust.

„Tímasetning tilkynningar minnar er engin tilviljun. Hana ber uppi á 104 ára afmælisdegi móðurömmu minnar heitinnar sem átti sínar sterku rætur hér á Suðurlandi. Fyrir henni bar ég ætíð mikla virðingu enda lá hún aldrei á skoðunum sínum hvort sem var um strákslæti mín eða þjóðmálaumræðuna,“ segir Tómas Ellert í tilkynningu sem hann sendi frá sér í morgun.

„Sem stofnfélagi í Miðflokknum hef ég tekið mjög virkan þátt í starfi flokksins frá upphafi og starfa nú í kjördæmaráði Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Ég tel mig ekki þurfa að sanna eitt eða neitt, fyrir einum né neinum. Ég hef látið verkin tala á liðnu kjörtímabili í Sveitarfélaginu Árborg, sem segir alla þá sögu sem segja þarf um verk mín, orð og efndir. Það ætti enda engum að dyljast sá uppgangur sem hefur verið í Árborg undanfarin ár. Í störfum mínum sem bæjarfulltrúi í meirihlutasamstarfi í bæjarstjórn hef ég tekið mjög virkan þátt í þeim verkefnum sem unnin hafa verið sem formaður eigna- og veitunefndar auk starfa minna í bæjarstjórn og bæjarráði,“ segir Tómas Ellert.

„Að baki þessari ákvörðun minni er mikill vilji til að láta gott af mér leiða fyrir kjördæmið og Ísland allt. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning og hvatningu sem ég hef fengið að undanförnu sem að lokum hefur leitt til þessarar ákvörðunar minnar,“ segir Tómas Ellert ennfremur og bætir við að ljóst sé að uppstillingarnefndar bíði ærið verkefni að stilla upp sterkum framboðslista fyrir kosningarnar í haust.

„Markmið Miðflokksins í Suðurkjördæmi er að ná tveimur þingsætum í kosningunum enda eigum við ekki að sætta okkur við minna. Það vantaði lítið upp á að það tækist árið 2017, en nú eru öll teikn á lofti um að það muni takast. Til að svo megi verða, þurfum við að nýta allt sem í okkar vopnabúri býr og leggjast á eitt um að tala skýrt fyrir þeim gildum og málefnum sem Miðflokkurinn stendur fyrir. Það er einfaldlega nauðsyn fyrir land og þjóð nú þegar fyrir liggja stór verkefni við endurreisn landsins að Miðflokkurinn nái sem mestum styrk í næstu alþingiskosningum, þann slag vil ég taka af fullu afli,“ segir Tómas Ellert að lokum.

Fyrri greinGott bíósumar framundan
Næsta greinSvekkjandi tap í Grindavík