Tómas Ellert ráðinn kosningastjóri Miðflokksins á landsvísu

Tómas Ellert Tómasson. Ljósmynd/Aðsend

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og bæjarfulltrúi Miðflokksins í Árborg, hefur verið ráðinn kosningastjóri Miðflokksins á landsvísu vegna alþingiskosninganna þann 25. september næstkomandi.

Í tilkynningu frá Miðflokknum segir að Tómas Ellert hafi í störfum sínum sem bæjarfulltrúi leitt þá gríðarmiklu innviðauppbyggingu sem Árborg hefur unnið að á undanförnum árum og dylst engum sem átt hefur leið um Selfoss og nágrenni síðustu vikur og mánuði.

Tómas Ellert hefur jafnframt yfirgripsmikla þekkingu á mannvirkjagerð ásamt víðtækri reynslu af stjórnsýslunni í gegnum störf sín sem bæjarfulltrúi og sem fyrrverandi verkefnastjóri á umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.

„Miðflokknum er mikill fengur í að fá Tómas Ellert til starfa af fullum krafti í kosningabaráttuna framundan, ekki eingöngu vegna dugnaðar hans og elju, heldur líka vegna þekkingar hans á innviðauppbyggingu sem nýtast mun við uppbyggingu þjóðarleikvanga og samgöngumannvirkja, svo sem Sundabrautar og öðrum samgönguæðum innan, og til og frá borginni og einnig endurreisn Reykjavíkurflugvallar,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Tómas Ellert skipar að auki 2. sæti Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Fyrri greinVerulegar tafir á umferð vegna malbikunar
Næsta greinÞrjú ný héraðsmet í grindahlaupi