Tómas Birgir leiðir Nýja óháða listann

Frá fundinum á Midgard (f.v.) Guðmundur, Rebekka, Tómas, Christiane, Heiðbrá, Guðni og Anna ásamt fundarstjórnendum, þeim Orra og Ellert. Ljósmynd/Aðsend

Uppstillingu í efstu sætin hjá Nýja óháða listanum í Rangárþingi eystra er lokið. Tómas Birgir Magnússon, ferðaþjónustuaðili og íþróttakennari, mun leiða listann í komandi sveitarstjórnarkosningum.

Eins og nafnið bendir til er um nýtt framboð að ræða en í 2. sæti listans sigur Christiane L. Bahner sem leiddi Framboð óháðra í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Nýi óháði listinn hélt fund á Midgard síðastliðinn þriðjudag, þar sem frambjóðendur kynntu sig og síðan var gerð könnun á meðal fundargesta, þar sem gafst kostur á að raða frambjóðendum í efstu sæti listans.

Í tilkynningu frá Nýja óháða listanum segir að vel hafi verið mætt á fundinn og líflegar umræður urðu um mikilvæg málefni, sem verða frambjóðendum listans gott veganesti fyrir kosningabaráttu næstu vikna. Af fundinum að dæma sé mikill áhugi og almenn ánægja með framboðið

Með hliðsjón af könnuninni eru efstu sæti listans þannig skipuð:
1. Tómas Birgir Magnússon, ferðaþjónustuaðili og íþróttakennari
2. Christiane Bahner, sveitarstjórnarfulltrúi og lögmaður
3. Guðni Ragnarsson, flugmaður og bóndi
4. Heiðbrá Ólafsdóttir, lögfræðingur og bóndi
5. Guðmundur Ólafsson, bóndi
6. Rebekka Katrínardóttir, verslunareigandi
7. Anna Runólfsdóttir, verkfræðingur

Næstu dagar fara í að skipuleggja málefnastarfið og næstu opna fundi á svæðinu ásamt því að ljúka uppstillingu listans á sætunum fyrir neðan.

Fyrri greinFramboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Árborg samþykktur
Næsta greinGóð mæting á 100. héraðsþing HSK