Tölvupóstur veldur uppnámi

Ritstjórn vekur athygli á því að þessi frétt er frá árinu 2011

Á síðasta fundi sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps krafði minnihlutinn meirihlutann um skýringar á tölvupósti sem sveitarstjórnarmönnum barst um byggingu Flóaskóla.

Jón Friðrik Matthíasson, byggingafræðingur hjá M2 teiknistofu, sendi póst sem innihélt upplýsingar um byggingu Flóaskóla á alla aðal- og varamenn í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps í febrúar. Minnihlutinn gagnrýndi það sem honum sýndist vera afskipti meirihlutans af starfi samráðsnefndar um skólamál.

Meirihlutinn svaraði því hins vegar til að hann áskildi sér „rétt til að koma með tillögur inn í hópinn til umræðu“ en gerði engar athugasemdir við störf nefndarinnar.

Gunnar Þorgeirsson, oddviti, vildi gera sem minnst úr málinu í samtali við Sunnlenska og sagði meirihlutann hafa viljað kynna sér hugmyndafræðina á bak við hönnun Flóaskóla. Vakið hafði athygli þeirra að hann var mjög hagkvæmur í byggingu.

Meirihlutinn hefði því brugðið sér í heimsókn og skoðað bygginguna og sömuleiðis hefði umsjónarmaður tæknisviðs sveitarfélagsins óskað eftir upplýsingum um grunnteikningar og kostnaðaráætlun hjá Jóni Friðriki, hönnuði Flóaskóla. Af óútskýranlegum ástæðum hefði Jón Friðrik síðan sent umbeðin gögn á alla fulltrúa sveitarstjórnar.

Fyrri greinHeilagur draumur á Íslensku tónlistarverðlaununum
Næsta greinBið eftir snjóbíl loks á enda