Tölvulistinn nýr samstarfsaðili Símans á Selfossi

(F.v.) Berglind Björg Harðardóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu hjá Símanum, Hlíðar Þór Hreinsson, framkvæmdastjóri Heimilistækja og Tölvulistans og Lárus Gunnarsson, leiðtogi einstaklingssölu hjá Símanum. Ljósmynd/Aðsend

Síminn hefur samið við Heimilistæki/Tölvulistann um frekara samstarf fyrirtækjanna en nú munu Heimilistæki/Tölvulistinn taka að sér endursölu og þjónustu fyrir Símann á Selfossi og í Reykjanesbæ. Áður hafa Heimilistæki/Tölvulistinn verið endursöluaðili Símans á Egilsstöðum en frá og með 1. september munu þau taka að sér að þjónusta viðskiptavini Símans í alls þremur bæjarfélögum.

Viðskiptavinir Símans í þessum bæjarfélögum og nærsveitum geta því fengið alla ráðgjöf og þjónustu hjá Heimilistækjum/Tölvulistanum varðandi fjarskiptaþjónustu, útskipti á búnaði ofl.

„Við erum afskaplega ánægð að geta stækkað samstarf okkar við Heimilistæki/Tölvulistann sem hefur gengið afskaplega vel og við þannig aukið aðgengi að þjónustu og ráðgjöf sem viðskiptavinir okkar geta fengið í sinni heimabyggð. Þeirra starfsfólk þekkir þjónustu Símans mjög vel og eru þau frábærir fulltrúar okkar á staðnum ásamt því að hafa tæknilega þekkingu sem hjálpar okkur að veita enn betri þjónustu sem skiptir okkur máli,” segir Lárus Gunnarsson, leiðtogi einstaklingssölu hjá Símanum.

Hlíðar Þór Hreinsson, framkvæmdastjóri Heimilistækja og Tölvulistans, tekur ndir þetta og segir að „eftir áratuga gott samstarf á Egilsstöðum, þar sem Heimilistæki/Tölvulistinn hafa sinnt viðskiptavinum Símans við góðan orðstír, þá er það mikið gleðiefni að útvíkka samstarfið. Við hlökkum til samstarfsins og bjóðum viðskiptavini Símans á Selfossi og í Reykjanesbæ velkomna í verslanir okkar,” segir Hlíðar Þór.

Fyrri greinSelfoss tók 5. sætið – Tryggvi besti sóknarmaðurinn
Næsta greinMinningartafla baráttumanns