Töluverðar skemmdir á rafmagnslínum

Víða urðu skemmdir á rafmagnslínum í óveðrinu á suðausturlandi í gær. Viðgerðarhópar frá Landsneti hafa unnið að viðgerðum í allan dag en eiga enn talsverða vinnu eftir.

Prestbakkalína 1, milli Kirkjubæjarklausturs og Hornafjarðar leysti út á tíunda tímanum í gærkvöldi og hefur raforkuflutningskerfi Landsnets verið rekið í svokölluðum eyjarekstri, eða tveimur aðskildum rekstrarhlutum, frá því að bilunin varð þar sem rof á byggðalínunni leiðir til óstöðugleika í raforkuflutningskerfinu vegna veikrar stöðu þess og dregur mjög úr afhendingaröryggi kerfisins.

Strax og Prestbakkalína leysti út klukkan korter yfir níu í gærkvöldi var reynt að koma rafmagni á línuna aftur en án árangurs. Um klukkan tíu tókst að koma rafmagni á tengivirkið á Prestbakka og komst þá aftur rafmagn á hjá notendum í Vestur-Skaftafellssýslu.

Viðgerðarhópar frá Landsneti fóru á vettvang eldsnemma í morgun, strax og veður var gengið niður, og á tíunda tímanum fannst bilun á línunni við Hof í Öræfum. Flutningur á viðgerðarefni austur er hafinn og standa vonir til að viðgerð verði lokið í fyrsta lagi á morgun, laugardag. Einnig er verið að kanna hvort frekari bilanir séu á Prestabakkalínu þar sem mikil ísing hefur sest á hana í óverðinu í gærkvöldi og í nótt.

Töluverðar skemmdir urðu á byggðalínunni við Hof í Öræfum, þverslár í nokkrum möstrum eru brotnar og vírar slitnir.