Tólfþúsundasti íbúinn heimsóttur

(F.v.) Bragi bæjarstjóri, Margrét með Sóldísi Silju í fanginu, Adam Örn heldur á tólfþúsundasta íbúanum og Kjartan forseti bæjarstjórnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eins og sunnlenska.is greindi frá í vikunni rufu íbúar Árborgar 12.000 íbúa múrinn í fyrsta skipti þann 1. júní síðastliðinn.

Í kvöld heimsóttu Kjartan Björnsson, forseti bæjarstjórnar og Bragi Bjarnason, bæjarstjóri, tólfþúsundasta íbúann en hann fæddist á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi þann 1. júní, drengur sem er annað barn þeirra Margrétar Lúðvígsdóttur og Adams Arnar Stefánssonar.

Kjartan og Bragi færðu unga drengnum árnaðaróskir og Kjartan velti vöngum yfir framtíð drengsins, sem er fæddur á afmælisdegi Ungmennafélags Selfoss og barnabarnabarn Steina heitins spil, þannig að sá stutti ætti eflaust framtíð fyrir sér í íþróttum eða tónlist. Fjölskyldan fékk síðan gjöf frá Sveitarfélaginu Árborg og Yrju barnavöruverslun.

Íbúum Árborgar hefur fjölgað um eitt þúsund á rétt tæpum tveimur árum en ellefuþúsundasta íbúanum var fagnað í júní 2022. Í dag, föstudag, eru íbúarnir 12.015 talsins, þannig að ljóst er að fjölgun íbúa heldur jafnt og þétt áfram.

Fyrri greinMotocrosskeppni á Hellu á morgun
Næsta greinFyrsta tap Ægis