Tólf vildu sameinast Ásahreppi eða öðrum sveitarfélögum

Á fundi sveitarstjórnar Flóahrepps í vikunni var lagt fram erindi frá Árna Hrólfssyni í Reykjaseli þar sem gerð er athugasemd við niðurstöðu talningar í skoðanakönnun um sameiningu sveitarfélaga, sem gerð var í maí.

Í skoðanakönnuninni var boðið upp á þá valmöguleika að segja „já“ eða „nei“ og ef sagt var „já“ var boðið upp á fimm möguleika að krossa við. Niðurstaðan var sú að 165 sögðu já og 163 sögðu nei.

Tólf aðilar sem þátt tóku í skoðanakönnun og merktu við „já“ vildu sjá sameiningu við Ásahrepp eða önnur sveitarfélög sem ekki var gefinn kostur á að merkja við í könnuninni.

Að mati formanns kjörstjórnar er það val sveitarstjórnar hvort þessi tólf atkvæði séu úrskurðuð gild þar sem um skoðanakönnun var að ræða.

Sveitarstjórn samþykkti á fundinum að þessi tólf atkvæði verði dæmd ógild. Niðurstaða í skoðanakönnun er því sú að 153 sögðu „já“, 163 sögðu „nei“ og ógildir seðlar voru fjórtán.

Fyrri greinBuster glefsaði í barn
Næsta greinBitlausir Selfyssingar fengu tvö mörk í bakið