Tólf spurningar – og svör – frá íbúafundinum

Um 400 manns mættu á íbúafundinn á Hótel Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íbúum gafst kostur á að senda inn spurningar á íbúafundinum á Hótel Selfossi í dag, þar sem fjallað var um skuldastöðu sveitarfélagsins. Til svara voru Fjóla St. Kristinsdóttir bæjarstjóri og Bragi Bjarnason formaður bæjarráðs. Þeim gafst ekki kostur á að svara öllum 107 spurningunum sem bárust, en hér eru nokkrar spurningar – og svör – frá fundinum.

Hvaða niðurskurðartillögur liggja fyrir nú?
Fjóla: Hagræðingarteymi er að vinna að því að gera tillögur sem verða teknar fyrir á bæjarstjórnarfundi 26. apríl. Þá verðum við með pakkann alveg tilbúinn. Þá munum við leggja fram þessar tillögur og þá verður allt komið fram. Við höfum verið að draga úr ákveðnum fjárfestingum og hægt á verkefnum. Við munum halda áfram með Stekkjarskóla og fráveitumálin en erum ekki að fara að fjárfesta í einhverju sem er ekki að fara að skapa okkur tekjur eða telst grunnþjónusta.

Kemur til greina að loka skólahúsnæðinu á Eyrarbakka?
Fjóla: Við erum með fjóra grunnskóla sem eru mis ásetnir. Það verður þannig áfram og við þurfum að vinna með að skólarnir séu rétt mannaðir miðað við fjölda barna hverju sinni. Við erum ekki að fara að skerða þjónustu grunnskólanna þó að það sé möguleiki til að hagræða. Það er ekki inni í hagræðingarpakkanum að loka skólanum á Eyrarbakka.

Hver var lokakostnaðurinn við fjölnota íþróttahúsið á Selfossi?
Bragi: Selfosshöllin kostaði um 1,5 milljarð króna.

Uppsagnir eru yfirvofandi, mun þá bæjarstjórum fækka um einn?
Fjóla: Það var einn að hætta um síðustu áramót.

Kemur til greina að selja Selfossveitur?
Fjóla: Það hefur ekkert komið til tals og er ekki inni í þessum hagræðingartillögum.

Mun þurfa að segja upp starfsfólki sem vinnur fyrir Árborg?
Fjóla: Það er óhjákvæmilegt í svona hagræðingarfasa að það verða einhverjar uppsagnir. Ég get ekki sagt hverjir það verða. Við erum með ráðningarbann og munum ekki ráða nýtt fólk til starfa þar sem fólk er að hætta af náttúrulegum orsökum eða hverfa til annarra starfa. Ef einhver segir upp þá skoðum við það með sviðsstjórum hvort hægt sé að hagræða. Sums staðar er það þannig að það verður að koma maður í manns stað. Til dæmis þar sem eru börn, þar verða að vera ákveðið margir starfsmenn.

Á að lækka laun bæjarfulltrúa?
Fjóla: Laun bæjarfulltrúa voru öll lækkuð frá og með 1. mars.
Bragi: Þetta var 5% lækkun sem skilar sér í 21 milljón króna hagræðingu.

Hvaða fjárfestingum er hægt að fresta?
Bragi: Nú þegar erum við búin að fresta uppbyggingu á frístundamiðstöð, sem var á þriggja ára áætlun. Við erum líka að skoða það með starfsmönnum hvernig hægt er að nýta þessa fermetra sem sveitarfélagið á betur.

Hvers vegna fá 8. og 9. bekkur ekki unglingavinnu?
Bragi: Við erum að bjóða upp á minni sumarvinnu fyrir unglingana og það er leiðinlegt. Það er ekki gert af léttúð. Við erum að ráða færri sumarstarfsmenn, sem hefur verið gríðarlegur kostnaður fyrir sveitarfélagið.

Kemur til álita að fækka bæjarfulltrúum á nýjan leik?
Bragi: Það var samþykkt á síðasta kjörtímabili að fjölga þeim samkvæmt reglum um sveitarfélög. Þar af leiðandi getum við ekki fækkað þeim.

Stendur til að hækka fasteignagjöldin?
Fjóla: Við erum ekki að fara að hækka fasteignagjöld núna. Þau eru eins og þau eru út þetta ár. Það er líklegt að þau muni hækka aftur að ári þar sem það hefur orðið gríðarleg hækkun á fasteignamati hérna.

Fá íbúar að kjósa um stærstu niðurskurðartillögurnar?
Fjóla: Íbúarnir eru búnir að kjósa, þið kusuð okkur. Við erum að reyna að vinna öll saman og ætlum að gera þetta okkur öllum til hagsbóta. Við höfum mikla trú á þessari áætlun og höfum trú á því að við munum sigla út úr þessu fyrr en við ætlum okkur.

Fyrri greinJón Vignir framlengir til þriggja ára
Næsta greinÞórsarar í þrengingum