Tólf nemendur í landgræðsluskólanum

Árlegt sex mánaða námskeið Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna hófst þann 11. mars sl. og eru þátttakendur tólf að þessu sinni. Nemarnir koma frá Eþíópíu, Gana, Mongólíu, Níger, Úganda og Úsbekistan.

Námið er nú komið á fullt skrið en markmið námsins er að byggja upp færni sérfræðinga frá þróunarlöndum í landgræðslu, umhverfisstjórnun og sjálfbærri landnýtingu. Margir nemanna koma úr háskóla- eða rannsóknarumhverfi á meðan aðrir starfa í ráðuneytum eða sem umhverfisfulltrúar við náttúru- og landvernd.

Að vanda munu nemar Landgræðsluskóla HSþ hafa námsaðstöðu sína við Landbúnaðarháskóla Íslands á Keldnaholti í Reykjavík en einnig munu þau dvelja í um tvo mánuði yfir sumartímann í höfuðstöðvum Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti.

Þessar tvær stofnanir, þ.e. Landbúnaðarháskólinn og Landgræðslan koma að rekstri Landgræðsluskólans, ásamt utanríkisráðuneytinu sem leggur skólanum til fjármagn.

Landgræðsluskólinn var stofnaður 2007 og síðan þá hafa 51 nemi útskrifast frá skólanum frá 10 löndum í Afríku og Mið-Asíu.