Tólf innbrot í sumarbústaði

Tólf tilkynningar bárust í síðustu viku til lögreglunnar á Selfossi um innbrot í sumarbústaði.

Sjö innbrotanna voru í Grafningi en önnur í Grímsnesi og í Biskupstungum.

Í dagbók lögreglu kemur fram að þjófarnir hafi fyrst og fremst verið á höttunum eftir flatskjáum og hljómflutningstækjum. Mismiklar skemmdir voru á húsunum eftir þjófana en í flestum tilvikum spenna þeir upp glugga eða hurðir. Í sumum tilvikum er gengið beint í að fjarlægja tækin en í öðrum er rótað í skápum.

Talsverður erill var hjá lögreglunni á Selfossi um helgina en flest verkefnin voru minni háttar snúningar. Þó var einn maður fluttur á slysadeild Landspítalans á föstudagskvöld. Hann féll aftur fyrir sig við hnefahögg sem maður veitti honum í Þorlákshöfn og rotaðist.