Tólf þúsund varphænur fá að ganga frjálsar úti

„Þetta er mikill heiður fyrir okkur og viðurkenning sem fyrirtækið er mjög stolt af, við höfum lengi unnið að þessu og nú er vottunin komin í hús, skjalfest með undirskrift sem fer í ramma og upp á vegg.“

Þetta segir Stefán Símonarson, framkvæmdastjóri hænsnabúsins Nesbús á Vatnsleysuströnd sem á og rekur hænsnabúið í Miklholtshelli í Flóa. Búið hlaut á dögunum lífræna vottun frá Vottunarstofunni Túni.

Í búinu, sem er splunkunýtt eru tólf þúsund varphænur sem teljast „lífrænar“ og verpa lífrænum eggjum. „Við erum fyrsta alvöru búið á Íslandi sem fáum vottun sem þessa, það eru jú áttatíu hænur á Sólheimum og Skaftholti sem eru með svona vottun en ekkert svona risabú eins og okkar,“ segir Stefán.

Nesbú er með um 80 þúsund varphænur og hefur vöxtur fyrirtækisins verið mjög mikill undanfarin ár og starfsmennirnir orðnir um þrjátíu talsins. „Já, reksturinn gengur mjög vel, það er mikil sala í eggjum, ekki síst með auknum ferðamannastraumi til landsins,“ segir Stefán.

Stór viðburður í lífrænni þróun
„Þetta er mikil viðurkenning fyrir Nesbú og neytendur í landinu, nú geta þeir valið sér lífræn egg úti í búð, þetta er stór áfangi í okkar starfi og vil ég nota tækifærið og óska landsmönnum til hamingju með þennan merkilega áfanga, þetta er í rauninni stórviðburður á lífrænum mælikvarða,“ segir Gunnar Ágúst Gunnarsson, framkvæmdastjóri vottunarstofunnar Túns.

Fyrri greinDýrmæt stig í súginn í toppbaráttunni
Næsta greinDagbók lögreglu: Hrasaði og mjaðmagrindarbrotnaði á Þingvöllum