Tökulið Game of Thrones sótti ekki um leyfi

Kvikmyndatökulið sem var við tökur á nýjustu þáttaröð Game of Thrones á Íslandi fyrir skemmstu, sótti ekki um leyfi fyrir tökunum til Umhverfisstofnunar. Slíkt leyfi þurfti vegna utanvegaaksturs í Dyrhólafjöru.

Lista yfir veitt leyfi er að finna á vef Umhverfisstofnunar, en leyfi fyrir utanvegaakstur í fjörunni er þó hvergi að finna á listanum, að því er RÚV greinir frá.

Aðalbjörg Birna Guttormsdóttir, teymisstjóri hjá Umhverfisstofnun, segir í samtali við fréttastofu RÚV að sótt hafi verið um leyfi fyrir tökunum hjá Mýrdalshreppi og það veitt. Slíkt leyfi dugir þó ekki til því samkvæmt náttúruverndarlögum verður að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar til að aka vélknúnum ökutækjum utan vegar vegna kvikmyndagerðar.

Kvikmyndafyrirtækið Pegasus hafði umsjón með tökunum hér á landi í samvinnu við erlent tökulið þáttanna vinsælu.

„Við munum senda Pegasus bréf þar sem farið er yfir hvernig á að bera sig að, þetta er leyfisskyld framkvæmd. Jafnvel munum við boða þá á okkar fund og sveitarfélagið líka,“ segir Aðalbjörg Birna. Hún bendir á að þó þarna sé verið að keyra í sandi, sem margir líti svo á að muni jafna sig fljótt, þá spili fleira inn í.

FRÉTT RÚV

Fyrri greinÁfram skelfur í Kötlu
Næsta grein„Virðingarleysið við heimilisfólkið er takmarkalaust“