Tók út fé af reikningi annars manns

Héraðsdómur Suðurlands frestaði á dögunum ákvörðun um refsingu yfir ungum manni sem villti á sér heimildir og tók fé út af bankareikningi annars manns í Arion banka.

Maðurinn fór átta sinnum í Arion banka í ágúst í fyrra og tók samtals 79.500 krónur út af veltureikningi annars manns. Hann blekkti starfsfólk bankans með því að villa á sér heimildir og gefa upp kennitölu reikningseigandands sem sína eigin, jafnframt því sem hann ritaði nafn reikningseigandans á greiðslukvittanir vegna útektanna.

Ákærði viðurkenndi skýlaust brot sín og með tilliti til ungs aldurs hans og að maðurinn hafði hreint sakavottorð þótti dómara rétt að fresta ákvörðun refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum tveimur árum haldi ákærði almennt skilorð.

Maðurinn hefur endurgreitt hið svikna fé að fullu og enginn sakarkostnaður var af máli þessu.

Fyrri greinHafsteinn og Kristján danskir bikarmeistarar
Næsta greinBorun lokið við Goðaland