Tók fram úr lögreglunni og var sektaður fyrir hraðakstur

Í síðustu viku voru 42 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi.

Í einu tilfellinu ók erlendur ferðamaður bifreið sinni fram úr stórri eftirlitsbifreið lögreglunnar, vel merktum sendibíl með bláum ljósum og borðalagður allan hringinn. Síðan ók hann fram úr tveimur öðrum bifreiðum þar sem framúrakstur var bannaður. Á þeim stað mældist hraði bifreiðarinnar 120 km/klst. Ökumaðurinn, karlmaður frá Mexíkó, greiddi sekt sína á vettvangi eftir að hafa fengið lán hjá samferðamanni sínum þar sem inneign hans dugði ekki. Hann fór síðan frjáls ferða sinn, nokkurs vísari um umferðarlög á Íslandi og hvað ber að varast í umferðinni.

Í dagbók lögreglunnar kemur einnig fram að tveir ökumenn á Selfossi voru stöðvaðir í síðustu viku vegna gruns um ölvun við akstur. Þrír voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, tveir þeirra á Selfossi og einn við Skeiðavegamót. Sá reyndist einnig ökuréttindalaus eftir að hafa verið sviptur ökurétti vegna fyrri brota.

Sex ökumenn voru kærðir fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar við akstur bifreiða sinna.

Fyrri greinEfndu til keppni og mældu matarsóun í Vallaskóla
Næsta greinTveir ökumenn hópbíla sektaðir