Tjarnarbrúin tengir saman byggðir

Í dag, föstudaginn langa, var vígð brú milli byggða sem tengir saman reiðleiðir úr Tjarnarbyggð í Sandvíkurhreppi við hesthúsabyggðina á Eyrarbakka.

Brúin liggur yfir hreppamarkaskurðinn milli Sandvíkurhrepps og Eyrarbakkahrepps.

Um eitthundrað manns voru viðstaddir vígsluna en hópar hestamanna neðan af ströndinni og ofan frá Selfossi hittust við brúna um miðjan dag. Ari Thorarensen, forseti bæjarstjórnar Árborgar, og Kjartan Ólafsson, formaður Hestamannafélagsins Sleipnis klipptu á borða og opnuðu brúna formlega.

Að því loknu buðu Jónas og Maddý á Stóra-Aðalbóli gestum í hesthúsið sitt til að þiggja léttar veitingar.

Mikil ánægja er meðal hestamanna með brúna sem líta á hana sem stóran áfanga í því að tengja reiðleiðir í Flóanum.