Tíu verkefni á Suðurlandi fengu styrk

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, gerðu grein fyrir úthlutuninni. Ljósmynd/Golli

Á dögunum var úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða, samtals rúmum 1,5 milljarði króna til verkefna víðsvegar um landið.

Hæsti styrkurinn úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða á Suðurlandi er til Ferðafélags Íslands til að bæta fráveitumál í Hrafntinnuskeri, 35,2 milljónir króna. Ferðafélagið fær einnig tæplega 11,6 milljón króna styrk til að vinna að ýmsum úrbótum og öryggismálum í Nýjadal.

Ásahreppur fær tvo styrki. Rúmar átta milljónir til að gera aðgengilega 16 km gönguleið með Köldukvísl, Köldukvíslargljúfri, Fagrafossi og Nefju og rúmar 6,2 milljónir til að bæta aðgengi að Hvanngiljafossi og Dynk.

Hveradalir ehf. fá rúmlega 14 milljón króna styrk til að smíða palla og fræðsluskilti á stígum á hverasvæðinu í Hveradölum og Skaftárhreppur fær 6 milljón króna styrk til þess að byggja upp Ástarbrautina, sem er gönguleið á Kirkjubæjarklaustri.

Kerlingafjallavinir fá 4,8 milljón króna styrk til að bæta aðgengi og upplifun innan Kerlingafjallasvæðisins, meðal annars með nýjum upplýsingaskiltum.

Tvö önnur verkefni í Hrunamannahreppi fá styrk en sveitarfélagið fékk 3,9 milljón króna styrk til að ganga frá vegghleðslu og göngustíg við Hrunalaug og 2 milljónir til að vinna að hönnun og undibúningi að aðgengi við Brúarhlöð.

Þá fékk Bláskógabyggð 4 milljón króna styrk til að bæta svæðið kringum hverinn við Laugarvatn og að lokum fékk Hestamannafélagið Geysir 329 þúsund króna styrk til að koma upp áningarhólfi á Dómadalsleið.

1,5 milljarður króna í verkefni á Suðurlandi
Í Landsáætlun um uppbyggingu innviða er gert ráð fyrir um þriggja milljarða framlagi til þriggja ára, 2020 til 2022. Helmingurinn af þeirri upphæð fer til 37 verkefna á Suðurlandi.

Dýrustu verkefnin í þessari áætlun á Suðurlandi eru 197,5 milljónir króna í deiliskipulagsvinnu og uppbyggingu göngustíga á Þingvöllum, 146,1 milljón króna í innviðauppbyggingu við Dyrhólaey, 126,6 milljónir í öryggismál og bílastæðamál við Skógafoss og 105 milljónir í framkvæmdir við Jökulsárlón.

„Það er ánægjulegt að fylgjast með því hvernig það kerfi um náttúruvernd og uppbyggingu innviða sem var búið til með stofnun Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða og Landsáætlun um uppbyggingu innviða heldur áfram að styrkjast og skila árangri. Það er lykilatriði fyrir þá samhæfðu ferðaþjónustu byggða á grunni gæða sem framtíðarsýn okkar, um að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun árið 2030, byggir á,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Fyrri greinÉg myndi vilja vera Tómas Þóroddsson
Næsta greinBækur í fimmtán tíma sóttkví