Tíu Ölfusingar gengu um Hornstrandir

Tíu félagar í Ferðamálafélagi Ölfuss fóru í vel heppnaða göngu um Hornstrandir dagana 5. -8. ágúst sl.

Ólafur Áki Ragnarsson, fararstjóri, skrifar:

Ferðin hófst í Ögurvík, sem er í Ísafjarðardjúpi á nesinu milli Skötufjarðar og Mjóafjarðar, þann 5. ágúst. Siglt var með Jónasi Helgasyni bónda í Æðey út með Snæfjallaströnd, fram hjá bröttum hlíðum Grænuhlíðar, fyrir Rytur og inn í Aðalvík.

Í Aðalvík hafði hluti af göngufélögunum útvegað sér gistingu í húsi í Látravík og aðrir voru í tjöldum. Fyrsta daginn eftir að fólk hafði komið sér fyrir á svæðinu var gengið út með fjörunni í átt að kirkjunni að Stað í Aðalvík. Um er að ræða um 5 klukkustunda göngu fram og til baka frá tjaldsvæðinu.

Á öðrum degi var gengið út á Straumnesfjall sem er um 435 m. á hæð. Á Straumnesfjalli standa enn hálf hrundar byggingar eftir radarstöð sem ameríski herinn reisti þar á árunum 1953-1956. Radarstöðin var síðan starfrækt frá 1956-1960, en þá gafst herinn upp við að starfrækja stöðina og yfirgaf svæðið. Frá Straumnesfjalli var haldið niður Öldudal niður í Rekavík bak Látrum og eftir henni í Aðalvík. Gangan tók um 8 klukkustundir með berjatínslustoppi.

Á þriðja degi var gengið frá Aðalvík að Hesteyri í Hesteyrarfirði. Gengið var upp með Mannfjalli yfir Stakkadalsfjall með viðkomu í sumarhúsi í Stakkadal yfir á Hesteyri. Um kvöldið var grillað lamb og humar sem Jónas bóndi hafði ferjað til hópsins á Hesteyri. Maturinn smakkaðist afar vel enda góðir grillarar í hópnum.

Hesteyri er fallegur staður með nokkrum húsum sem eingöngu eru notuð sem sumarhús. Nokkur hús eru notuð til veitinga- og gistihúsareksturs fyrir ferðamenn yfir sumartímann. Á Hesteyri eru ummerki um fjölmenna byggð, en um 1952 voru íbúar ekki nema 30 talsins. Var þá skotið á fundi þar sem samþykkt var að allir flyttu brott af svæðinu.

Á fjórða degi sótti Jónas bóndi í Æðey hópinn á Hesteyri og sigldi með hann inn í Ögur þar sem bílarnir biðu og ekið var til síns heima. Ferðin heppnaðist í alla staði mjög vel, hópurinn var samstilltur og skemmtilegur. Ekki skemmdi að veðrið lék við göngufólkið.

Fyrri greinNær ófært inn í Þórsmörk
Næsta greinRangæingar hjóla af stað