Tíu öflugar hraðhleðslustöðvar settar upp á Suðurlandi

Ráðherrarnir Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir á blaðamannafundinum í morgun. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Orkusjóður hefur úthlutað styrkjum að upphæð 227 milljónum króna til uppsetningar 43 nýrra hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið.

Tíu stöðvar verða settar upp á Suðurlandi; á Selfossi, Þingvöllum, Geysi, Hellu, Hvolsvelli, í Vík í Mýrdal, á Kirkjubæjarklaustri, í Skaftafelli, Freysnesi og Nesjahverfi við Höfn.

Þrisvar sinnum aflmeiri en eldri stöðvar
Nýju stöðvarnar eru þrisvar sinnum aflmeiri en öflugustu stöðvarnar sem fyrir eru hérlendis og eiga að stuðla að hindrunarlausum ferðum rafbíla milli landshluta.

Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum. Stöðvarnar tilheyra nýrri kynslóð hraðhleðslustöðva en um er að ræða 150kW hleðslustöðvar. Öflugustu stöðvarnar hafa hingað til verið 50kW og flestar eru 22kW. Gert er ráð fyrir a.m.k. helmings mótframlagi framkvæmdaraðila og nemur heildarfjárfesting verkefnanna því 450 milljónum króna hið minnsta.

Stórt skref í vistvænum samgöngum
„Orkuskiptin eru í fullum gangi og á örfáum vikum höfum við tilkynnt um aðgerðir þar sem heildarfjárfestingin nemur ríflega hálfum milljarði króna. Þetta er mjög stórt skref í því að gera samgöngur okkar vistvænar og hefur einnig mikla þýðingu fyrir markmið okkar að verða leiðandi í sjálfbærri ferðaþjónustu,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á blaðamannafundi í morgun.

Fyrri greinPóstflokkun breytt á landsbyggðinni
Næsta greinSamið við Eykt um byggingu hjúkrunarheimilis