Tíu myndavélum stolið í TRS

Brotist var inn í Tölvu- og rafeindaþjónustu Suðurlands við Eyraveg rétt fyrir kl. 4 í nótt og þaðan stolið einni tölvu og að minnsta kosti tíu stafrænum myndavélum.

Samanlagt verðmæti tækjanna er talið nema um einni milljón króna.

Að sögn lögreglu komst þjófurinn eða þjófarnir inn með því að brjóta gler í hurð með gangstéttarhellu og gengið hratt til verks því öryggisvörður og lögregla voru komin á staðinn skömmu eftir að boð barst.

Lögreglan er að skoða upptökur úr eftirlitsmyndavélum en þeir sem hafa orðið varir við mannaferðir við verslunina í nótt eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Selfossi í síma 480 1010.