Tíu milljónir í menningarminjar í Múlakoti

Forsætisráðuneytið hefur veitt tíu milljón króna styrk til varðveislu menningarminja í Múlakoti í Fljótshlíð. Um er að ræða bæjarhúsin sem risu árin 1897 til 1946, rústir fjóss, hesthúss og hlöðu, lystigarð Guðbjargar Þorleifsdóttur og lysthús auk annarra rústa sem kunna að tilheyra bænum.

Minjastofnun Íslands hefur unnið að þessu verkefni í samráði við forsætisráðuneytið. Tilgangurinn með átaksverkefninu er að hefja enduruppbyggingu þessara menningarminja, halda við minjum er tengjast menningarsögu sveitarfélagsins og nýtist verkefnið í þágu samfélagsins til eflingar menningartengdar ferðaþjónustu í héraði.

Eigendur húsanna, þau Stefán Guðbergsson og Sigríðar Hjartar vilja afsala sér þessum eignum þannig að opinberir aðilar geti komið að verkefninu.

Á heimasíðu Rangárþings eystra er greint frá því að fyrirhugað sé að stofna félag eða sjálfseignarstofnun um varðveislu staðarins. Rangárþing eystra og Byggðasafnið í Skógum ættu aðild að því en munu ekki leggja fé til verkefnisins heldur vera hluti af bakhjörlum þess. Eigendur Múlakots myndu afhenda félaginu viðkomandi fasteignir án endurgjalds með því markmiði að varðveita menningarminjar og minjalandslag svæðisins.

Fyrri greinListasafn Árnesinga opnað á ný
Næsta greinSelfosskirkja opin ferðamönnum í sumar