Tíu milljónir í atvinnuátak fyrir ungmenni

Bæjarráð Árborgar samþykkti á fundi sínum í morgun viðbótarfjárveitingu upp á rúmar 10 milljónir króna til atvinnuátaks fyrir ungmenni á aldrinum 17-20 ára í sveitarfélaginu.

Ætlunin er að verja fjárhæðinni til ráðningar ungmenna í fjölbreytt sumarstörf hjá sveitarfélaginu og var kostnaðinum, 10,2 milljónum króna vísað til viðauka við fjárhagsáætlun. Störfin sem skapast af þessu eru í kringum fimmtán talsins auk verkstjóra.

Eggert Valur Guðmundsson, fulltrúi minnihlutans í bæjarráði, studdi málið einnig en tillagan að þessu verkefni kom frá Braga Bjarnasyni, menningar- og frístundafulltrúa, Guðlaugu Jónu Hilmarsdóttur, félagsmálastjóra og Jóni Tryggva Guðmundssyni, yfirmanni framkvæmdasviðs. Eggert lét bóka að hann fagnaði tillögunni og því frumkvæði sem sviðsstjórar sveitarfélagsins sýndu með henni.

Fyrri greinSASS opnar starfsstöð á Hvolsvelli
Næsta grein„Þú verður að klára færin“