Tíu milljón króna sparnaður á ári

HS veitur sendu fyrir skömmu út bréf til viðskiptavina sinna um að þeir eigi nú sjálfir að sjá um álestur á mælum sínum og senda fyrirtækinu tölurnar.

Á þetta m.a. við viðskiptavini fyrirtækisins í sveitarfélaginu Árborg. Áður sáu starfsmenn á vegum HS veitna um að ganga í hús og lesa af mælunum.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS veitna sagði í samtali við Sunnlenska að ástæðan fyrir breytingunni væri í fyrsta lagi að í nútímaþjóðfélagi væri oft mjög erfitt að komast inn hjá viðskiptavinum til álestrar nema þá utan almenns vinnutíma og mörg dæmi um margar árangurslausar tilraunir til álestrar hjá einstökum aðilum.

„Hin ástæðan er kostnaður, en við erum með um 33 þúsund mæla í rekstri hjá okkar viðskiptavinum þannig að t.d. 300 kr. lækkun kostnaðar á hvern mæli gæfi 10 milljónir króna í árlegan sparnað,“ segir Júlíus. Þar sem dreifiveitur starfa undir eftirliti Orkustofnunar og í umhverfi gjaldskrárramma, þá eigi slíkur sparnaður að skila sér í lægri gjaldskrá þegar fram líða stundir að mati Júlíusar.

Hann bendir á að um beiðni sé að ræða en ekki kröfu og því verði fyrirtækið áfram með starfsfólk við að lesa af þar sem álestur skilar sér ekki.

Fyrri greinArna Ír: Verkfall í framhaldsskólum – sorgleg staðreynd
Næsta greinRagnar endurskoðar ákvörðun um að hætta