Tíu ferðamenn í vanda

Björgunarsveitirnar Stjarnan úr Skaftártungu og Lífgjöf úr Álftaveri voru kallaðar út í dag vegna bíls sem var fastur í Hólmsá á leiðinni upp að Axarfossi.

Axarfoss er á Öldufellsleið á Mýrdalssandi. Bíllinn festist í Hólmsá en tíu erlendir ferðamenn sem í honum voru höfðu allir komist í land af sjálfsdáðum. Mjög lélegt símasamband var við svæðið og litlar upplýsingar bárust frá ferðafólkinu og var talið að aðeins þyrfti að draga bílinn úr ánni.

Einnig voru upplýsingar frá ferðafólkinu um staðsetningu þeirra misvísandi og því var ákveðið að senda björgunarsveitir að þeim úr tveimur áttum.

Þegar björgunarsveitirnar komu á staðinn voru ferðalangarnir orðnir kaldir og blautir eftir dvöl sína í rigningu á árbakkanum. Bíllinn, sem er bílaleigubíll, hafði flotið niður ánna og kerra sem hann dró var oltin. Mikið vatn var í ánni en mikið hefur rignt á svæðinu undanfarið.

Björgunarsveitamenn fluttu fólkið til byggða og hressti það við með heitum drykkjum og húsaskjóli.

Ár á Suðurlandi eru vatnsmiklar um þessar mundir og vill Slysavarnafélagið Landsbjörg beina þeim tilmælum til ferðafólks á fjallvegum að leggja ekki í árnar nema það hafi góða þekkingu á vöðum og sé á vel útbúnum bílum. Ekki ætti að leggja í fjallaferðir einbíla. Lítil umferð er um fjallvegi og því ekki víst að aðstoð berist fljótt.

Fyrri greinVilja „eðlilega endurgreiðslu“ fyrir hitaveituna
Næsta greinÖlfusá í löng frárennslisgöng