Tíu bú á Suðurlandi stóðust úttekt

sunnlenska.is/Jóhanna SH

Einn af mörgum þáttum í starfi Landgræðslu ríkisins er eftirlit með landnýtingu hrossabænda. Kerfisbundið eftirlit er þó einungis á þeim hrossabúum, sem eru virk í landnýtingarþætti gæðastýringar í hrossarækt.

Árið 2016 hlutu 40 jarðir, þar sem stunduð er hrossarækt, viðurkenningar vegna vistvænnar landnýtingar. Þar af voru sex jarðir í Rangárvallasýslu og fjórar jarðir í Árnessýslu.

Í Rangárvallasýslu eru það jarðirnar Fet/Lindarbær, Kirkjubær, Oddhóll, Hemla, Árbæjarhjáleiga og Vakursstaðir. Í Árnessýslu eru það Hrafnkelsstaðir, Auðsholtshjáleiga/Grænhóll, Hvoll og Hraun I.

Fagráð í hrossarækt og Félag hrossabænda hafa gert samkomulag við Landgræðsluna um að hún annist landnýtingarþáttinn. Til að meta ástand hrossahaganna eru notaðar reglur sem byggja á sjónmati á ástandi landsins og greinanlegum gróður- og rofeinkennum, þ.e. landlæsi.

Flest bendir til að landlæsi og beitarmenning hrossabænda hafi batnað, frá því hross voru flest í landinu um 1996. Þá greindust víða alvarleg ofbeitartilfelli í hrossflestu sveitum landsins.

Árið 2013 voru hross í landinu 77.380 talsins og hafði fjölgað um 6.113 hross frá árinu 2002.