Tíu áminntir vegna ljósleysis

Lögreglan á Selfossi kærði þrettán ökumenn í liðinni viku fyrir að aka of hratt. Einn var kærður fyrir að aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna og einn fyrir að aka ölvaður.

Sá hafði ekið utan í húsnæði Olís við Arnberg á Selfossi án þess þó að teljandi tjón hlytist af. Hann fékk gistingu hjá lögreglu þar til hann var orðinn viðræðuhæfur en var sleppt að lokinni yfirheyrslu.

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir að nota ekki öryggisbelti við akstur bifreiða sinna og aðrir þrír fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu.

Tíu ökumenn voru áminntir vegna bilaðs ljósabúnaðar bifreiða þeirra. Almennt hefur lögregla tamið sér það verklag að ef eitt ljós er bilað fá menn að fara með áminningu en séu fleiri biluð er sektað fyrir vanbúnað. Þessir tíu eru væntanlega búnir að lagfæra sín mál og komnir með ljósabúnaðinn í lag enda skammdegið að ganga í garð og mikilvægt að hafa þessa hluti í lagi.

Fyrri greinHamar sigraði á Greifamótinu
Næsta greinBrotist inn í sumarhús