Titringur á jarðskjálftafundi

Heitar en málefnalegar umræður spunnust á íbúafundi sem Viðlagatrygging Íslands boðaði til vegna Suðurlandsskjálftans 2008 í Hótel Selfossi í kvöld.

Um opinn fund var að ræða en þrátt fyrir hvatningu fundarboðenda til íbúa á áhrifasvæði jarðskjálftans í maí 2008 um að mæta var dræm mæting á fundinn og rétt rúmlega þrjátíu gestir í salnum.

Viðlagatrygging boðaði til fundarins í kjölfar þess að hópur tjónþola á Suðurlandi hafði óskað eftir fundi. Þannig voru flestir fundargestir í þeim hópi tjónþola sem hefur ekki fengið úrlausn sinna mála eða er óánægt með tjónamat og afgreiðslu á sínum fasteignatjónum. Nokkrir þeirra fóru í saumana á sínum málum á fundinum og lögðu fyrirspurnir fyrir fulltrúa Viðlagatryggingar en þar voru mættir stjórnarformaður, framkvæmdastjóri, lögmaður og lögfræðingur.

Þrátt fyrir að þessir tjónþolar hafi ekki fengið niðurstöðu í sín mál á fundinum voru aðilar beggja vegna borðs sammála um að um þarfan fund hefði verið að ræða þar sem ýmsum álitamálum var velt upp.

Í einu ágreiningsmálinu kom fram af hálfu tjónþolans að ekki hafi verið gerðar viðeigandi jarðvegsrannsóknir undir húsi hans, sem hefur sigið eftir skjálftann. Í lok fundar lýsti Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Viðlagatryggingar, því yfir að hún myndi beita sér fyrir því að hlutlausir aðilar myndu gera rannsókn á ysjun á Selfossi en ysjun getur átt sér stað við jarðskjálfta þegar jarðvegur missir stífni og burð sökum sveifluálags. Fram kom á fundinum að slík rannsókn hafi aðeins verið gerð á einni lóð á Selfossi eftir skjálftann.

Bætur eftir skjálftann 9,6 milljarðar króna
Í kynningu Huldu Ragnheiðar kom fram að alls hafi 2.800 tilkynningar borist um innbústjón eftir Suðurlandsskjálftann og 2.400 fasteignatjón. Alls er um að ræða tjón á 3.800 stöðum á Suðurlandi. Greiddir hafa verið rúmir 9,6 milljarðar króna í tjónabætur, þar af eru 7,2 milljarðar vegna tjóns á fasteignum.

Óuppgerð fasteignatjón eru 49 og tjón sem hafa farið fyrir úrskurðarnefnd eða munu fara þangað eru 0,63% af heildarfjölda tjónanna. Það er langt undir meðaltali sem þekkist annarsstaðar þar sem ágreiningur er jafnan um 2-5% tjóna.