Tímamótasamningur um verklega kennslu slökkviliðsmanna í útkallsstarfi

Frá undirritun samningsins í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Ljósmynd/HMS

Brunamálaskólinn, sem starfræktur er af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og menntar slökkviliðsmenn um allt land, hefur nú í fyrsta sinn gert langtímasamning við Brunavarnir Árnessýslu um verklega kennslu í grunnnámi slökkviliðsmanna í hlutastarfi.

Samningurinn, sem nær til þriggja ára, markar tímamót í samstarfi þessara aðila og veitir samstarfinu formlegan og traustan grunn til framtíðar.

„Samstarfið byggir á góðri reynslu sem hefur þróast frá árinu 2021. Með nýjum samningi er því lyft upp á næsta stig með skýrari framtíðarsýn og markvissari framkvæmd námsins. Markmiðið er að efla hæfni og viðbragðsgetu slökkviliða með samræmdri, faglegri og vandaðri verklegri þjálfun,“ segir Helga Einarsdóttir, teymisstjóri hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

Verkleg námskeið verða haldin í lotum og fara fram víðsvegar um landið. Námskeiðin taka til breytilegra þátta lögbundinna verkefna slökkviliða, þar á meðal slökkvistarfsemi, björgun fastklemmdra og viðbrögð við mengunaróhöppum. Slík þjálfun er lykilatriði í öryggi og viðhalda fagmennsku á sviði brunavarna á Íslandi. Með samningnum er jafnframt tryggður stöðugleiki og gæði í verklegri þjálfun, sem mun nýtast bæði slökkviliðsmönnum og samfélaginu öllu.

„Brunavarnir Árnessýslu hafa tekið virkan þátt í þróun og framkvæmd verklegrar þjálfunar fyrir hönd Brunamálaskólans. Þekking og reynsla þeirra hefur reynst afar dýrmæt í uppbyggingu námsins og nú fær það samstarf formlegt og skýrt umboð til næstu þriggja ára,“ bætir Helga við að lokum.

Fyrri grein„Nýr“ Þristur fluttur á Sólheimasand
Næsta greinHvolskóli leigður undir kvikmyndatökulið