Tímamót í samstarfi sveitarfélaganna

Sveitarstjórnir Ásahrepps og Rangárþings ytra samþykktu nýtt rammasamkomulag um samstarf sveitarfélaganna með samþykktum fyrir þrjú byggðasamlög auk þjónustusamninga og samstarfssamninga á fundum sínum þann 9. desember síðastliðinn.

Samkomulagið markar veruleg tímamót hjá sveitarfélögunum því það nær til allra meginþátta í starfsemi þeirra.

Til að fagna þessum merka áfanga þá boðuðu sveitarfélögin til sérstakrar undirritunarhátíðar í Menningarhúsinu á Hellu í gær að viðstöddu starfsfólki og stjórnum sameiginlegra verkefna.

Undanfarið ár hefur sérstök viðræðunefnd sveitarfélaganna unnið að þessari endurskoðun samninganna og útfærslu þeirra og skilaði fullmótuðum tillögum til sveitarstjórnanna sem nú hafa verið samþykktar. Fullyrða má því að tillögur nefndarinnar hafi fengið mikla umræðu og hafi verið lagðar fram að vel athuguðu máli til afgreiðslu í sveitarstjórnum Rangárþings ytra og Ásahrepps.

Samkomulagið tekur til allra tvíhliða samstarfsverkefna sveitarfélaganna og verkefna þar sem ríkið er þriðji aðili. Tilgangur samkomulagsins er að skapa skýran ramma um samstarfið, auðvelda stjórnun verkefna og ákvarðanatöku og búa samstarfsverkefnum traustan og hagfelldan grunn.

Með samkomulaginu eru rekin þrjú byggðasamlög um ákveðin samstarfsverkefni. Þannig er starfrækt Húsakynni bs., byggðasamlag um allar sameiginlegar fasteignir sveitarfélaganna; Vatnsveita Rangárþings ytra og Ásahrepps bs., byggðasamlag um eignir og rekstur sameiginlegrar vatnsveitu sveitarfélaganna; og Oddi bs. sem er deildaskipt byggðasamlag um rekstur leik- og grunnskóla sveitarfélaganna, þ.e. Leikskólann Laugalandi, Heklukot Hellu, Laugalandsskóla og Grunnskólann Hellu.

Innan ramma samkomulagsins eru í gildi sérstakir þjónustusamningar um rekstur frístunda- og sumarverkefna barna og unglinga og félagsmiðstöð; rekstur gámaplans og umsjón með snjómokstri; umsjón og rekstur íþróttamannvirkja; og umsjón með fasteignagjöldum, sameiginlegum mannvirkjum og landi og fjallskilamálum á Holtamannaafrétti. Þá eru einnig í gildi þjónustusamningar milli byggðasamlaganna þriggja og Rangárþings ytra um bókhald og fjármálaumsýsla, fasteignaumsjón og rekstur og umsjón með verklegum framkvæmdum.

Einnig eru sérstakir samstarfssamningar milli sveitarfélaganna um fjarskiptainnviði og uppbyggingu ljósleiðarakerfis og sameiginlegur samningur sveitarfélaganna við sóknarnefnd Oddakirkju um nýtingu og rekstur Menningarhússins á Hellu. Að auki koma sveitarfélögin sameiginlega að rekstri Lundar, hjúkrunarheimilis ásamt ríkinu.

Samstarfsnefnd sveitarfélaganna fer með eftirlit með framkvæmd samningsins og skal m.a. undirbúa sérstakan samráðsdag í maí á hverju ári þar sem farið er yfir stöðu allra verkefna og er hann opinn öllum íbúum sveitarfélaganna. Samstarfsnefndin skal skila sameiginlegri ársskýrslu til beggja sveitarstjórna og skulu sveitarstjórar beggja sveitarfélaganna annast undirbúning hennar.