Tímabundnar varnir skoðaðar á meðan unnið er að greiningu

Mynd/Vegagerðin

Mikill sjór gekk á land við Vík í Mýrdal í vikunni með þeim afleiðingum að flóð myndaðist austan við þorpið og sunnan við Þjóðveg 1. Mikill sjór safnaðist saman austan við bæinn og tveimur kílómetrum fyrir austan við Vík gekk sjór upp að þjóðveginum.

Fyrri flóð hafa veikt sjávarkambinn á svæðinu með þeim afleiðingum að sjór gengur nú lengra inn á land en áður, jafnvel í veðrum sem teljast ekki sérstaklega slæm. Því má gera ráð fyrir að tíðni flóða sem ná inn á land aukist, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Vegagerðin og VSÓ verkfræðistofa hafa undanfarið unnið að greiningu þar sem unnið er að skilgreiningu á varnarlínu framan við þjóðveginn. Er hún hugsuð á svipaðan hátt og á varnarlínunni framan við þorpið sem skilgreind var árið 1994. Gert er ráð fyrir að greiningarvinnunni ljúki í vetur eða vor.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni er greint frá tímabundnum aðgerðum til að verjast flóðum. Skoðað verður að rjúfa Kötlugarðinn, varnargarð austan við Vík, til að hleypa vatni til austurs þannig að stærra svæði taki við flóðvatni. Jafnframt mun Vegagerðin leggja til við sveitarfélagið að byggð verði tímabundin flóðvörn í vegstæði reiðvegar sem fyrir er. Til skoðunar er að hækka þann veg nú þegar til að veita tímabundna vörn.

Til skoðunar er að hækka reiðveginn til þess að mynda tímabundna vörn.
Flóð við Vík í Mýrdal í síðustu viku. Mynd/Vegagerðin
Fyrri greinHjálmar Vilhelm piltur ársins hjá FRÍ